
Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn hyggist efna til samráðs við borgarana um jafnt stórt og mikilvægt verkefni.
Ég tel líka nokkuð öruggt að ný ríkisstjórn sé vel meðvituð um og hafi vonandi kjark til að horfast í augu við það að ríkisfjármálin eru í þessu samhengi ekki einskorðuð við ríkisreksturinn heldur fjalla þau um hið opinbera í heild. Þó svo að í íslensku máli sé talað um ríkisfjármál i þessu samhengi, sem gefur vissulega til kynna að þar sé aðeins verið að tala um annað stjórnsýslustigið, þá fjallar hugtakið ríkisfjármál í hagstjórnarlegu tilliti um fjármál hins opinbera í heild.
Í gegnum tíðina hef ég hinsvegar ítrekað orðið þess áskynja að íslenskir stjórnmálamenn, sér í lagi þeir sem hafa setið á þingi, átta sig oft á tíðum ekki á því að ríki og sveitarfélög eru hluti af sömu heild og sitjandi ríkisstjórn og Alþingi ber ekkert síður ábyrgð málefnum sveitarfélaga en ríkisins.
Löggjafinn á því alls ekki að skilgreina sig sem hluta af öðru stjórnsýslustiginu. Það er raunar hluti þess vanda sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir í rekstri hins opinbera, þ.e. sú hugmynd sem hefur fest rætur i íslenskum stjórnmálum, að sveitarfélög séu og eigi að vera svo sjálfstæð að Alþingi komi ekki við hvað þau gera og hvernig. Það gengur raunar þvert gegn bæði ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins og Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland fullgilti árið 1990, og gengur einnig gegn ábyrgri stjórn efnahagsmála að undanskilja svo stóran part af “ríkis”-fjármálunum þegar mótuð er stefna fyrir samfélagið í heild.
Hugmyndin um sjálfstjórn sveitarfélaga, gengur nefnilega ekki út á það að sveitarfélög ráði sér alfarið sjálf, heldur þvert á móti að tryggja að staðbundin stjórnvöld hafi ákveðið svigrúm innan þess lagaramma sem þeim er settur og lúti ekki beinni eða óbeinni daglegri stjórn æðra stjórnvalds. Það er eftir sem áður löggjafans að ákveða hverju sveitarfélög eiga að sinna og það er á ábyrgð löggjafans að tryggja að sveitarfélög hafi tekjur til að standa undir þeim verkefnum, ekki aðeins rekstri heldur einnig og ekki síður nauðsynlegum fjárfestingum. Og það er Alþingis að ákveða hvað sveitarfélögum er heimilt og hvað ekki, t.d. í hvað þeim er heimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem þeim er úthlutað, hvort sem er með heimild til álagningar skatta og gjalda eða með fjárframlögum úr ríkissjóði.
Sú ofuráhersla á sjálfstjórn sveitarfélaga sem einkennt hefur stjórnmálin hér á landi, hefur að mínu mati komið verst niður á sveitarfélögunum sjálfum, þ.e. það að látið sé að því liggja að þau ráði sér alfarið sjálf og Alþingi megi jafnvel ekki ákvarða hvað þau skuli gera og í hvaða tilgangi, hefur á köflum leitt til þess að Alþingi hefur ekki axlað nógu mikla ábyrgð á málefnum sveitarstjórnarstigsins og einblínt um of á málefni ríkisins.
Það hefur líka skapað gjá á milli stjórnsýslustiganna, þar sem þingmenn líta jafnvel á sig sem talsmenn ríkisins í umræðu um hin ýmsu málefni sem snerta verka- og tekjuskiptingu stjónsýslustiganna tveggja. Afleiðingin af því er aldrei góð fyrir borgarana, enda skarast verkefni ríkis og sveitarfélaga oft og iðulega á og gæði þjónustunnar við borgarana er að talsverðu leyti háð því að stjórnsýslustigin tvö vinni saman að því að tryggja borgurunum góða þjónustu og ásættanleg lífskjör.
Ef ætlunin er að ráðast í hagræðingu í rekstri hins opinbera þá er því alls ekki hægt að undanskilja tæplega helming samneyslunnar sem fer fram í gegnum þjónustu sveitarfélaganna, sem bera ábyrgð á veitingu stórs hluta opinberrar þjónustu hér á landi, m.a. rekstur leik- og grunnskóla, félagsþjónustu o.s.fv.
Ef horft er til umfangs þeirrar þjónustu sem ríki og sveitarfélög veita með hliðsjón af fjölda starfsmanna sem henni sinna þá starfar um fjórðungur starfandi einstaklinga hér á landi hjá hinu opinbera en þar af starfar um 60% hjá stofnunum sveitarfélaga eða tæplega 35 þúsund manns. Í því samhengi ber að hafa í huga að fjöldi þeirra sem starfar við þjónustu sem heyrir undir hið opinbera er talsvert stærri, enda hefur umtalsverðum hluta opinberrar þjónustu verið útvistað til einkaaðila, t.d. rekstur sumra skóla- og heilbrigðisstofnana. Fjöldi þeirra sem eru í starfi hjá stofnunum sveitarfélaga eða ríkis gefur því ekki rétta mynd af heildarumfangi þeirrar starfsemi sem við í daglegu tali köllum grunnþjónustu hins opinbera, þ.e. umfangið er í raun meira en fjöldi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga gefur til kynna.